„Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að mörg heimili glíma við erfiða skuldastöðu, sum hver eiga í gríðarlegum erfiðleikum. Á sama tíma mælum við ekki með almennri niðurfærslu á verðtryggðum lánum. Það er ómarkviss aðgerð og dýr. Hún felur sömuleiðis í sér að þeir sem þurfa ekki á hjálp að halda fá hana engu að síður óumbeðið,“ segir Julie Kozack, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjósðins (AGS) á Íslandi.

Hún og Franek Rozwadowski, sendifulltrúa AGS hér á landi, kynntu í dag nýtt mat sjóðsins á stöðu og horfum hér í kjölfar efnahagsáætlunar stjórnvalda sem stóð yfir frá síðla árs 2008 og fram í ágúst í fyrra.

Dýr og ómarkviss aðgerð

Kozack segir nokkrar ástæður fyrir því að sjóðurinn mæli gegn almennum niðurfærslum verðtryggðra lána og bendir á að „Íslendingar hafa lagt sig fram um að leita leiða til að lækka skuldir heimilanna í samanburði við aðrar þjóðir. Hún eggur áherslu áherslu á að þeirri vinnu sé ekki lokið. Mikilvægt sé að ferlinu ljúki áður en önnur skref verði stigin.

„En almenn niðurfærslu verðtryggðra lána hjálpar ekki aðeins þeim sem þurfa á því að halda. Skuldir þeirra sem ekki glíma við erfiðleika myndu þá líka lækka. Við teljum þetta geta orðið ómarkvissa aðgerð og afar kostnaðarsama sem gæti valdið því að raska stöðugleika í ríkisfjármálum,“ segir yfirmaður sendinefndar AGS.