Stjórnendur svissneska bankans Julius Baer innsigluðu í dag kaup á erlendri eignastýringu bandaríska risabankans Bank of America Merrill Lynch, þ.e.a.s. þeim hluta starfseminnar sem er utan Bandaríkjanna. Kaupverðið nemur um 860 milljónum svissneskra franka, rétt rúmum 100 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi dagsins.

Samkvæmt umfjöllun bandaríska stórblaðsins The New York Times af málinu er eignastýringarhluti bandaríska bankans með 84 milljörðum dala í stýringu. Með kaupunum aukast eignir í stýringu hjá Julius Baer um 40% en þær nema nú jafnvirði 258 milljarða dala. Samkvæmt umfjöllun blaðsins fylgir með í kaupunum umsýsla með eignir upp á 74 milljarða dala til viðbótar fyrir auðuga viðskiptavini bankans í þróunarríkjunum.

Hluthafar tóku ekki vel í kaupin en þau eru fjármögnuð með handbæru fé og hlutabréfum í honum. Á sama tíma frestuðu stjórnendur bankans fyrirhuguðum kaupum hans á eigin hlutabréfum. Gengi hlutabréfa í Julius Baer féll um 6% á hlutabréfamarkaði í Zurich í Sviss í kjölfarið.

Bank of America Merrill Lynch vann fyrir bæði Icelandic Group um mat á stöðu og kostum, s.s. sölu eigna í fyrra, auk þess að vinna fyrir skilanefnd Landsbankans að sölu á hlut í bresku matvöruversluninni Iceland Foods.