Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi hefur ákveðið að bjóða sig fram í 2. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í Reykjavík.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Júlíus Vífill er formaður skipulagsráðs Reykjavíkur og formaður Faxaflóahafna sf. en fyrri hluta þessa kjörtímabils var Júlíus Vífill formaður menntaráðs Reykjavíkur. Hann hefur setið í borgarstjórn í samtals tvö kjörtímabil.

Júlíus Vífill er stjórnarformaður Íslensku óperunnar og situr í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann er formaður stjórnar Skákakademíu Reykjavíkur og Tónlistarskólans í Reykjavík.

„Ég mun leggja áherslu á að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið í Reykjavík á þessu kjörtímabili,“ segir Júlíus Vífill í tilkynningunni.

„Það er ljóst að á þessum erfiðu tímum í efnahagsmálum þjóðarinnar þarf að sýna aðhald og forgangsraða verkefnum upp á nýtt. Mikilvægt er að grunnþjónustan haldist óbreytt og að velferðarmál verði ekki skert. Sveitarfélög landsins gegna mikilvægu hlutverki í því að verja hag heimila og fjölskyldna. Um leið þarf að tryggja uppgang og vöxt atvinnulífsins.“

Júlíus Vífill er kvæntur Svanhildi Blöndal, presti og hjúkrunarfræðingi. Þau eiga fjögur börn.