Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var í morgun dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir peningaþvætti. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur en aðalmeðferð málsins fór fram hinn 3. desember síðastliðinn

Saksóknari fór fram á 8-12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi en Júlíus er sakaður um að hafa þvættað 49 til 57 milljónir króna í gegnum sjóð sem hann var rétthafi af. Fjármunirnir þar komu til vegna viðskipta bílaumboðsins Ingvars Helgasonar á árunum 1982 til 1993.

Júlíus viðurkenndi að hafa ekki greitt skatta af umboðslaunum en kvað brotin vera fyrnd og að peningaþvætti ætti ekki við í því máli.

Saksóknarinn í málinu, Björn Þorvaldsson, sagði að dómsuppsögu lokinni að embættið myndi að öllum líkindum una niðurstöðunni.