*

föstudagur, 18. september 2020
Innlent 6. ágúst 2020 11:54

Júlíus Vífill fyrir Hæstarétt

Hæstiréttur féllst á leyfisbeiðnina þar sem úrlausn myndi hafa verulega almenna þýðingu um beitingu peningaþvættisákvæða hegningarlaganna.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Hæstiréttur Íslands féllst nýverið á beiðni Júlíusar Vífils Ingvarssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um áfrýjunarleyfi í máli ákæruvaldsins gegn honum. Að mati Hæstaréttar mun úrlausnin geta haft verulega almenna þýðingu.

Landsréttur dæmdi Júlíus í maí til tíu mánaða fangelsisvistar, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir peningaþvætti. Var Júlíusi gefið að sök að hafa geymt ávinning af skattalagabroti inn á erlendum bankareikningi árin 2010-14 en þá ráðstafað fjármunum inn á reikning í eigu vörslusjóðs sem hann, eiginkona og niðjar voru rétthafar að.

Að mati Landsréttar þótti fullsannað að fjármunirnir hefðu verið ólöglegur ávinningur af skattalagabroti. Af þeim sökum hefði það ekki neina þýðingu að téð skattalagabrotið hefði verið fyrnt þegar rannsókn málsins hófst. Með því staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms.

Hinn sakfelldi fór fram á áfrýjunarleyfi á þeim grunni að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur sökum þess að sönnunarmat dómsins hefði ekki verið í samræmi við réttarframkvæmd og meginreglur sakamálaréttarfars. Þá hefði frumbrotið verið fyrnt og ekki hefði verið horft til þess.

„Í dómi Landsréttar hafi því ranglega verið haldið fram að sjónarmið sem eigi við um auðgunarbrot um að brot teljist fullframið og fyrningarfrestur byrji að líða við tileinkun eigi ekki við um sjálfstætt brot, líkt og peningaþvætti, sem geti staðið yfir í langan tíma,“ segir í leyfisbeiðninni. Niðurstaða Hæstaréttar í málinu geti haft verulegt fordæmisgildi um upphaf fyrningarfrests brota gegn peningaþvættisákvæði hegningarlagana.

Þá taldi Júlíus einnig að sjálfsþvætti hafi ekki verið refsivert á téðum tíma og því ekki heimilt að refsa honum fyrir það brot á grunni meginreglna um bann við afturvirkni refsilaga.

Hæstiréttur féllst á beiðnina með þeim rökum að úrlausn dómsins myndi hafa verulega almenna þýðingu um beitingu peningaþvættisákvæða hegningarlaganna. Var því fallist á beiðnina.