Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur sakað Boris Johnson og Nigel Farage um að gefast upp þegar ástandið varð erfitt. Þeir hafa báðir lýst því yfir að vilja ekkert með útgönguferli Bretlands úr ESB að gera. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hefur Farage sagt af sér formennsku flokks síns og hætt í stjórnmálum.

„Brexit-hetjur gærdagsins eru nú orðnar hinar sorgmæddu Brexit-hetjur dagsins í dag," sagði Juncker um fráfarandi formann UKIP-flokksins breska og einn helsta talsmann útgöngusinna, Boris Johnson, á þingfundi Evrópuþings í dag. „Ættjarðarvinir gefast ekki upp, heldur bíta þeir á jaxlinn þegar sækir í veðrið."

Óánægja kraumaði meðal framkvæmdastjórnarinnar er hún bar erindi sitt fyrir Evrópuþing í dag, ef marka má heimildir fréttastofu BBC. „Í stað þess að áætla, þá hafa þeir yfirgefið skipið," sagði Juncker. Hann sagðist þá einnig ekki skilja hvers vegna breskir útgöngusinnar hafa ekki enn hafið hið formlega úrsagnarferli.