Mikið gjaldeyrisinnflæði hefur gert Seðlabankanum kleyft að auka verulega forðasöfnun sína í gjaldeyri undanfarna ársfjórðunga. Júní var metmánuður í kaupum Seðlabankans á gjaldeyri. Bankinn keypti alls 198 m. evrur á millibankamarkaði, sem samsvarar ríflega 29 mö. kr. m.v. meðalgengi EUR/ISK í júní samkvæmt tölum sem bankinn birti nýverið. Fyrra met í einum mánuði var 115 m. evra í ágúst í fyrra, því hefur veruleg aukning orðið. Til samanburðar námu gjaldeyriskaupin á fyrstu 5 mánuðum ársins að jafnaði 70 m. evra í hverjum mánuði.

Gjaldeyriskaupin í júní endurspegla að stórum hluta mikið innflæði gjaldeyris vegna þjónustuviðskipta, og er næsta víst að krónan hefði styrkst hressilega í síðasta mánuði ef ekki hefði verið fyrir inngrip bankans. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka .

Útlit er fyrir að hreinn gjaldeyrisforði bankans verði allt að þrefalt stærri um næstu áramót en hann var í ársbyrjun, þrátt fyrir að bankinn selji væntanlega talsverðan gjaldeyri í stóra aflandskrónuútboðinu í haust.