Leikfangaverslunin Just4Kids hefur ákveðið að mæta samkeppni á leikfangamarkaði með því að fara í verðstríð við ToysRUs. Öll leikföng hjá Just4Kids lækka umtalsvert í verði, eða á bilinu 30-80%. Just4Kids heitir því jafnframt að vera ávallt með lægsta verðið á öllum leikföngum.

Í tilkynningu frá Just4Kids segir að sem dæmi um verðlækkun má nefna að rugguhestur sem kostaði áður 12.990 krónur kostar nú 4.980 krónur. Starfsfólk Just4Kids mun fylgjast með verðþróun á markaðnum á hverjum degi og skiptir einu hver viðbrögð samkeppnisaðilans verða; Just4Kids mun ávallt bjóða lægra verð.

Í tilkynningunni er haft eftir Elíasi Þorvarðarsyni, framkvæmdastjóri Just4Kids:

“Þetta er einfalt mál. Just4Kids hefur frá fyrsta degi verið með lægsta verðið á leikföngum. En þar sem verslunin hefur aðeins starfað um skamma hríð þurfum við að láta heyra hátt og snjallt í okkur, til að ekkert fari milli mála hjá neytendum hvar þeir fá leikföng á lægsta verðinu. Besta leiðin til þess er hreint og klárt verðstríð þar sem ekkert verður gefið eftir. Við vorum lægri en ToysRUs í Kópavogi í síðustu könnun. Núna erum við miklu frekar komin í samkeppni við ToysRUs í Minneapolis.”

Verðlækkunin núna kemur til viðbótar þeirri 20% verðlækkun sem orðið hefur á leikföngum á þessu ári. Því má ætla að leikfangaverð hafi að jafnaði lækkað um 40-50% frá því fyrir jólin í fyrra. Þetta má þakka hagkvæmari innkaupum og hagkvæmari rekstrareiningum en þó fyrst og fremst harðari samkeppni, eins og segir í tilkynningunni.