Bandaríski tónlistarmaðurinn og leikarinn Justin Timberlake hefur selt útgáfurétt að tónlistarsafni sínu til fjárfestingafélagsins Hipgnosis Song Management á 100 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 13 milljörðum króna. Félagið fjárfestir í tónlist, en fjárfestingafélagið Blackstone er bakhjarl að kaupunum. Þetta kemur fram í grein hjá The Times.

Hipgnosis hefur farið í nokkrar sambærilegar fjárfestingar. Þar má nefna kaup félagsins á útgáfurétt tónlistarsafns Leonard Cohen og einnig kaup á 80% hlut í höfundarréttargreiðslum kántrísöngvarans Kenny Chesney.

Við kaupin mun Hipgnosis eignast útgáfurétt að 200 lögum sem Timberlake hefur komið að því að semja. Timberlake, sem gerði garðinn frægan með strákahljómsveitinni NSYNC en einnig sem sólólistamaður, hefur selt meira en 150 milljón plötur á ferlinum.

Margir af stærstu tónlistarmönnum samtímans hafa selt útgáfuréttinn að tónlistarsafni sínu á undanförnum árum. Universal keypti til að mynda útgáfurétt að tónlistarsafni Bob Dylan árið 2020 á 300 milljónir dala. Jafnframt seldi Neil Young 50% af eignarhlut af tónlistarsafni sínu fyrir um 150 milljónir dala. Bruce Springsteen seldi nýlega útgáfurétt að tónlistarsafni sínu til Sony, en fjölmiðlar vestanhafs sögðu samninginn vera 500 milljón dala virði. Auk þess hafa yngri tónlistarmenn eins og John Legend og David Guetta farið sömu leið.