Fyrir skömmu opnaði verslunarkeðjan JYSK sína þriðju verslun í Rúmeníu og nú 6. september verður fjórða verslun félagsins opnuð þar í landi. Stefnt er að opnun fleiri verslana þannig að þær verði jafnvel orðnar 10 í Rúmeníu innan skamms, að sögn Nils B. Stórá, framkvæmdastjóra JYSK í Austur Evrópu í Viðskiptablaðinu í dag.

Fjórða verslunin í Rúmeníu er í bænum Targu Mures í Transilvaníu, sem er um 150.000 manna bær, en ekki eru nema fjórir mánuðir síðan fyrsta verslunin var opnuð í Rúmeníu. Að sögn Nils er félagið þegar með fimm nýja samninga í vinnslu í Rúmeníu, en auk þess hefur félagið opnað verslun í Búlgaríu og stefnir að opnun fleiri verslana þar. Að sögn Nils er félagið einkum að horfa til þessara tveggja landa í Austur Evrópu sem stendur, en ekki er ólíklegt að það beini sjónum sínum til fleiri landa þegar fram líða stundir, enda hafa viðtökur verið góðar. Eru nú ríflega 700 starfsmenn á þeirra vegum í Austur Evrópu og gert er ráð fyrir að veltan í verslunum félagsins verði um 80 milljónir evra á þessu ári, eða ríflega sjö milljarðar króna.

"Markaðurinn þarna er ekki auðveldur en við teljum að það séu miklir möguleikar þarna. Þetta getur bara farið eina leið og það er upp á við," sagði Nils, en gert er ráð fyrir að opna skrifstofu í Rúmeníu innan skamms, sem myndi halda utan um uppbygginguna í framangreindum löndum.

Sömu aðilar og eiga Rúmfatalagerinn reka verslanir undir nafni JYSK víða um heim, auk þess sem þeir eiga fasteignafélagið SIM. Þessir aðilar reka nú 21 verslun í Eystrasaltslöndunum og 31 verslun í Kanada. Að sögn Nils er það í raun helsta vandamálið við útbreiðslu verslana þeirra í Austur-Evrópu hve erfitt er að fá gott húsnæði á heppilegum stöðum. Samstarfinu við SIM er ætlað að leysa þann vanda, en SIM hefur verið að auka verulega við sig húsnæði í þessum löndum. Á fálagið nú þrjár stórar lóðir í Rúmeníu sem ætlunin er að byggja á innan skamms.

Fyrir skömmu var greint frá því að Rúmfatalagerinn hefði keypt ráðandi hlut í dönsku húsgagnakeðjunni Ilva af Kaupþingi, jafnframt því að eiga kauprétt að þeim hlutum sem enn eru í Kaupþingi. Fyrir á Rúmfatalagerinn bresku húsgagnakeðjuna Pier.