*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Erlent 20. desember 2016 16:08

Kabila heldur í völdin

Forseti Kongó frestar kosningum um tvö ár en 40 manns hafa verið myrtir af öryggissveitum landsins í mótmælaöldu.

Ritstjórn
epa

Joseph Kabila forseti Kongó, áður belgíska Kongó, hefur frestað forsetakosningum í þessu risastóra landi sem er vellauðugt af góðmálmum, olíu og demöntum.

Síðan Kabila tók við völdum í kjölfar þess að borgarastríði lauk í landinu árið 2003, hafa orðið til um 100 þúsund störf í landinu bara í námu og olíuiðnaðinum meðan friðurinn hefur skapað efnahagsuppgang í landinu. 

Kveiktu í höfuðstöðvum stjórnarandstöðunnar

En mótmæli gegn ríkisstjórninni hafa aukist og drápu öryggissveitir Kabila um 40 manns í september ásamt því sem þær kveiktu í höfuðstöðvum helsta stjórnarandstöðuflokksins. 

Á þeim tíma sem Kabila hefur verið við völd hefur hann og fjölskylda hans safnað gríðarlegum auði og byggt upp viðskiptaveldi sem nær yfir að minnsta kosti 70 fyrirtæki að því er ítarleg rannsókn Bloomberg fréttastofunnar upplýsir.

Demantaleyfi og fleira í eigu fjölskyldunnar

Þar má meðal annars nefna demantanámuleyfi sem nær yfir 720 kílómetra svæði meðfram landamærum ríkisins að Angóla. 

Meðlimir fjölskyldunnar eiga jafnframt hluti í bönkum, bóndabýlum, eldsneytisdreifingarfyrirtækjum, flugfélögum, vegagerð, hótels, lyfjafyrirtækis, ferðaskrifstofu, snyrtistofum og næturklúbbum.

Flestir lifa á minna en 217 krónum á dag

Ekki er vitað hve mikill auður hefur safnast á hendur fjölskyldunnar í þessu einu af fátækustu ríkjum heims en hægt er að sjá að í bara tveimur fyrirtækjum eru fjárfestingar sem nema 30 milljónum Bandaríkjadala, eða 3,4 milljörðum íslenskra króna, og í öðru fyrirtæki eru áætlaðar tekjur umfram 350 milljón dali á fjórum árum.

Samkvæmt tölum Alþjóðabankans býr tveir þriðju hlutar 77 milljón íbúa landsins á minna en 1,9 dölum, eða 217 krónum á dag.

Seinna kjörtímabili forsetans lauk í gær

Seinna kjörtímabili Kabila lauk í gær, 19. desember og stjórnarskráin eins og hún er núna bannar honum að bjóða sig fram á ný. 

En kosningastjórn í landinu hefur frestað kosningum til að minnsta kosti apríl ársins 2018 og stjórnarskrárdómstóll sem Kabila skipaði á síðasta ári hefur úrskurðað að hann skyldi sitja við völd þangað til kosið verði.

Viðskiptaþvinganir á valda menn í stjórnkerfinu

Bandaríkin og Evrópusambandið hafa í kjölfar dauðsfallanna í mótmælunum í september sett sértækar viðskiptaþvinganir á innanríkisráðherra landsins sem og yfirmenn leyniþjónustu, lögreglunnar og hersins.

Joseph Kabila er sonur uppreisnarleiðtogans Laurent-Desire Kabila, en hann átti að minnsta kosti 25 börn með sjö mismunandi konum, og ólst hann upp í útlegð með föður sínum í fjölmörgum afríkulöndum. Tvíburasystir hans er einn þeirra fjölskyldumeðlima sem heldur úti gríðarlegu viðskiptaveldi.

Stikkorð: Bloomberg demantar olía Kongó málmar Joseph Kabila auðæfi