Stjórn Pressunar sem tók við í lok síðasta mánaðar hefur kært Björn Inga Hrafnsson, fyrrverandi stjórnarformann og framkvæmdastjóra Pressunar, fyrir fjárdrátt og brot gegn skatta- og bókhaldslögum að því er Fréttablaðið greinir frá.

Þegar félagið seldi frá sér útgáfuréttindi sín þann 5. september síðastliðinn skuldaði félagið 327 milljónir í opinber gjöld, en í kærunni segir að fráfarandi stjórnendur hafi hvorki staðið skil á opinberum gjöldum sem haldið var eftir af launum starfsmanna, né innheimtum virðisaukaskatti.

Einnig hafi á níunda tug milljóna verið millifærðar út af reikningum félagsins inn á reikning Björns Inga frá árinu 2014, en stjórnin segir bókhaldsóreiðu gert núverandi stjórn ókleyft að glöggva sig á ástæðum millifærslnanna.

Jafnframt heldur núverandi stjórn því fram að rökstuddur grunur sé á að Björn Ingi hafi notað á þriðja tug milljóna af eignum félagsins til að greiða fyrir kaup á húsinu Kirkjustétt 28 í Reykjavík.Hluti greiðslunnar er í formi auglýsingainneignar, en seljandi var Guðmundur Gauti Reynisson eigandi Húsgagnahallarinnar, Betra baks og Dorma, en heildarupphæðin nam 97 milljónum.