Uppboðsfyrirtækið Ebay og greiðslufyrirtækið Paypal hafa kært Google og tvo framkvæmdastjóra félagsins fyrir að stela upplýsingum sem tengjast greiðslukerfi fyrir farsíma. Framkvæmdastjórarnir tveir, Osama Bedier og Stephanie Tilenius, störfuðu áður fyrir PayPal. Þau kynntu nýtt farsímagreiðslukerfi Google í gær, í samstarfi við Mastercard, Citigroup og símfyrirtækið Smart.

Risar í Kísildal í Los Angeles berjast nú um hlutdeild á markaði greiðslukerfa fyrir farsíma, sem talin er eiga sér mikla framtíð. Reuters greinir frá málinu í dag.

Framkvæmdastjórarnir tveir eru sakaðir um að hafa veitt Google upplýsingar sem þeir öfluðu sér í starfi hjá Paypal og eru bundnar trúnaði.