Samtökin Icelandic Wildlife Fund hyggjast leita til dómstóla ef ISAVIA verður ekki við kröfu þeirra um að setja upp umdeilt auglýsingaspjald að nýju í dag að því er Fréttablaðið greinir frá.

Um er að ræða auglýsingaskilti sem á stóðu ásakanir um að fiskeldi valdi stórfelldri mengun í fjörðum landsins og að fiskar sem slyppu úr kvíunum myndu valda útrýmingu villta íslenska laxastofnsins.

Brjóta reglur Isavia en skiptar skoðanir um siðareglur SÍA

Var það tekið niður eftir að hafa hangið í nokkra daga uppi í komusal Leifsstöðvar, enda sagði Isavia hana brot á siðareglum Sambands íslenskra auglýsingastofa og eigin reglum um að auglýsingar varði ekki deilumál tveggja hópa, sem og að ekki séu um rangar upplýsingar að ræða og að þær vegi hvorki að fólki né fyrirtækjum.

Fengu samtökin í kjölfarið álit siðanefndar sambandsins sem sagði það hvorki vega að fólki né fyrirtækjum, en ekki væri hægt að fullyrða hvort staðhæfingar skiltisins væru sannaðar vísindalega. Eftir að hafa breytt auglýsingunni lítillega hafa samtökin óskað eftir því að það yrði sett upp á ný, sem Isavia hefur synjað.

Segir Jón Kaldal talsmaður íslenska sjóðsins að því hafi félagið leitað sér lögfræðiaðstoðar, og krefst sjóðurinn þess að skiltið verði sett upp í síðasta lagi í dag.

„Við erum búin að gera þær breytingar sem Isavia óskaði eftir þegar skiltið var tekið niður og förum ekki fram á annað en að það verði sett upp,“ segir Jón sem segir að annars muni samtökin leita réttar síns og krefja Isavia um bætur.