WOW Air hefur lagt fram kæru á hendur Pálma Haraldssyni, Iceland Express, Birni Vilberg Jónssonar og annarra ótilgreindra starfsmanna Iceland Express. Kæran varðar meintar njósnir Pálma og Iceland Express gegn WOW Air. DV greinir frá málinu í dag en Baldur Oddur Baldursson, forstjóri WOW, staðfestir að kæra hafi verið lögð fram.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að Pálmi Haraldsson, eigandi Iceland Express, léti telja inn og út úr vélum Wow air.

Í gögnum um málið sem DV hefur undir höndum kemur fram að starfsmenn WOW voru upplýstir um það af starfsmanni ISAVIA þann 18. júnú að starfsmenn Iceland Express stunduðu hleranir á tetra-rás WOW. Starfsmaður ISAVIA taldið að hlerunin hafi staðið yfir í töluverðan tíma og hafði staðið einn starfsmann Iceland Express að verki. Björn Vilberg viðurkenndi þá að tilgangur hlerunnar væri að afla upplýsinga um farþegatölur og annað sem snýr að starfsemi WOW. Upplýsingarnar væru sendar beint til eiganda og stjórnarformanns Express, Pálma Haraldssonar.

Skarphéðinn B. Steinarsson, forstjóri Iceland Express, segir það vissulega rétt að Iceland Express hafi fylgst með tetra-rásinni, en það sé langt í frá að hér sé um njósnir að ræða. Hann segir þessa umræddu rás vera í eigu Iceland Express, jafnvel þótt að þjónustuaðili WOW air, Keflavik Flight Services (KFS), sé að nota hana. „Iceland Express Handling keypti á sínum tíma á þriðja tug rása og lagði þá KFS til nokkrar rásir sem þeir fengu til afnota. Og þetta kerfi er enn í notkun,“ segir Skarphéðinn í samtali við blaðamann DV. „Iceland Express hefur ekki gert athugasemd við það.“