*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Innlent 12. maí 2019 16:05

Kæra úrskurð um OR lánaskilmála

Gagnaveitan kærir þann hluta úrskurðar um fjárhagslegan aðskilnað við OR sem skilyrðir eignarhald.

Ritstjórn
Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar heitir Hrafnkell V. Gíslason
Gígja Einarsdóttir

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Pósts- og fjarskiptastofnunar, segir það vera niðurstöðu stofnunarinnar að heilt yfir væri til staðar fjárhagslegur aðskilnaður milli Gagnaveitunnar og Orkuveitunnar eins og mælt er fyrir um í fjölmiðlalögum, en athugasemdir væru gerðar við tvennt sem þyrfti að laga.

Í Viðskiptablaðinu 26. apríl síðastliðinn var fjallað um úrskurðinn, sem Orri Hauksson, forstjóri Símans, sagði sýna að fjármögnun Gagnaveitunnar hefði verið óeðlileg.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitunnar, lagði hins vegar á það áherslu í viðtali við blaðið 4. apríl að engar opinberar ábyrgðir væru á lánum fyrirtækisins og lánskjör þess byggðar sjálfstætt á trú fjármálastofnana á fjárhag Gagnaveitunnar, ekki annarra. Hrafnkell segir stofnunina hafa verið með viðvarandi eftirlit með fjárhagslega aðskilnaðinum frá upphafi.

„Var úttektin sem birt var fyrr í vetur bara enn eitt skrefið í því, en hún var reyndar óvenjulega ítarleg. Þar gerðum við athugasemdir við tiltekin ákvæði í lánasamningum þess efnis að ef Orkuveitan fer undir 50% í eignarhlutfalli á Gagnaveitunni, þá hafi fjármögnunaraðilarnir heimild til að taka lánasamningana til endurskoðunar,“ segir Hrafnkell, en Gagnaveitan hefur nú kært þann hluta úrskurðarins. Hrafnkell segir þetta ákvæði ekki hafa alltaf verið til staðar í lánasamningum fyrirtækisins.

„Þetta hefur verið með ýmsum hætti, og alls ekki svona frá upphafi, enda hafa þeir verið að finna nýjar leiðir til að fjármagna sig. Hitt atriðið sem við bendum á er notkun á svokölluðum sjóðspotti Orkuveitusamsteypunnar, sem við segjum ekki óeðlilega ef hann er notaður til að jafna sveiflur í venjulegum rekstri, borga laun, húsaleigu og annað slíkt. En þegar sjóðspotturinn er notaður til að jafna fjárfestingar í mun hærri upphæðum en sem nemur venjulegum rekstri er það komið út fyrir þessi eðlilegu mörk á notkun hans.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is