Eignarhaldsfélag Smáralindar ehf., sem er í eigu Regins, áformar að kæra úrskurð Héraðsdóms Reykjaness, í máli Norðurturnsins hf. gegn félaginu og Kópavogsbæ, til Landsréttar. Í yfirlýsingu sem Reginn sendi Viðskiptablaðinu kemur fram að málið varði eingöngu formreglur þinglýsingalaga.

Deilt hefur verið um bílastæði við Smáralind nú í á sjötta ár. Endanlegur dómur Hæstaréttar um efnið var kveðinn upp í Hæstarétti síðasta sumar en þar var komist að þeirri niðurstöðu að stofnast hefði til kvaðar um samnýtingu á bílastæðum lóðanna við Hagasmára 1 og 3. Undir rekstri málsins höfðu Eignarhaldsfélagið og Kópavogsbær gert með sér nýjan lóðarleigusamning en þar var kvaðarinnar ekki getið.

„Þegar mál þetta var undir áfrýjun til Landsréttar gerði [Eignarhaldsfélagið] nýjan lóðarleigusamning 18. október 2018 við [Kópavogsbæ] um lóðina Hagasmára 1, þar sem kvaðarinnar um sameiginleg afnot bílastæða á lóðunum var ekki getið. Þessi samningur getur ekki haft nokkur áhrif fyrir það sakarefni sem hér er til úrlausnar, enda gátu [Kópavogsbær] og [Eignarhaldsfélagið] ekki sín á milli samið um að kvöð, sem veitir [Norðurturninum] tiltekin hlutbundin réttindi yfir lóðinni, félli niður," segir í dómi Hæstaréttar.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í byrjun árs varðaði þinglýsingu téðs samnings en í byrjun síðasta árs krafðist Norðurturninn þess að umrædd færsla í þinglýsingarbók yrði leiðrétt þannig að kvaðarinnar yrði getið. Því hafnaði þinglýsingarstjóri og var þeirri ákvörðun skotið til héraðsdóms. Fyrir dómi benti Norðurturninn á að tilvist kvaðarinnar væri nú óumdeild eftir dóm Hæstaréttar og að félagið hefði mikla hagsmuni af því að umrædd kvöð yrði virt.

Eignarhaldsfélagið byggði á móti á því að með þinglýsingunni hefði ekki með neinum hætti verið hróflað við réttarstöðu Norðurturnsins. Málsskotsheimild þinglýsingalaga heimili ekki að leyst sé úr efnisatvikum að baki skjali og í slíku máli verði ekki leyst úr hvort réttur, sem standi þinglýsingu í vegi, sé til eður ei. Ekki var fallist á það af hálfu héraðsdómara en að mati hans bar þinglýsingarstjóra að geta kvaðarinnar við þinglýsingu lóðarleigusamningsins.

„Í málinu er deilt um það hvort sýslumanni hafi borið að árita sérstaklega á lóðarleigusamninginn að kvöð væri um samnýsingu bílastæða og gagnkvæman umferðarrétt á lóðunum við Hagasmára. Málið varðar aðeins formreglur þinglýsingarlaga og lýtur að ákvörðun sýslumanns frá því vorið 2018. Í málinu reynir því að engu leyti á efnisleg atriði um fyrrnefnda kvöð enda hefur Hæstiréttur staðfest tilvist kvaðarinnar [...]. Það skal tekið fram að úrskurður héraðsdóms verður kærður til Landsréttar,“ segir í yfirlýsingu Regins sem send var Viðskiptablaðinu.