Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, kærði Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, og Benedikt Bogason, hæstaréttardómara, til ríkissaksóknara fyrir meint skjalafals. Vill Hreiðar Már meina að hlerunarúrskurður, sem saksóknari fékk frá Benedikt, sem þá var héraðsdómari, í maí 2010 hafi verið falsaður. Er greint frá þessu í Fréttablaðinu .

Er þetta m.a. grundvöllur frávísunarkröfu Hreiðars í máli á hendur honum sem þingfest var á dögunum.

Í kærunni segir að því sé haldið fram í úrskurðinum að hann hafi verið veittur í Héraðsdómi Reykjavíkur og að Ólafur Þór hafi sótt þing fyrir hönd embættis sérstaks saksóknara. Þar hafi hann lagt fram kröfu um símhlustun ásamt upplýsingaskýrslu. Hreiðar heldur því fram að ekkert af þessu sé rétt.

Þvert á móti hafi þinghaldið verið haldið á heimili dómarans og skrifleg beiðni hafi ekki legið fyrir. Þá hafi Ólafur Þór ekki sótt þinghaldið sjálfur heldur lögreglumenn á hans vegum.