Lögreglumennirnir tveir, sem sérstakur saksóknari hefur kært til ríkissaksóknara fyrir meint brot á þagnarskyldu, unnu að rannsókn á máli Milestone og er þeim gefið að sök að hafa látið þriðja aðila í té upplýsingar úr rannsókn málsins.

Mennirnir tveir höfðu unnið hjá sérstökum saksóknara frá árinu 2009 fram til síðustu áramóta, þegar þeir hófu störf sem sjálfstæðir rannsakendur. Grunsemdir um brot þeirra vöknuðu eftir að þeir höfðu látið af störfum.

Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að málið, sem um ræðir, snerti Milestone, en ekki er vitað hverjir það voru, sem lögreglumennirnir eiga að hafa látið fá upplýsingar úr rannsókninni. Ekki er ljóst hvort meint brot hafa spillt rannsókn saksóknara, en tekið er fram í tilkynningu embættisins að verjendum aðila, sem hlut eiga að máli, hafi verið tilkynnt um þessi meintu brot.

Sjá nánar: Tveir lögreglumenn hjá sérstökum saksóknara kærðir.