Franska fyrirtækið Kering, sem meðal annars á vörumerkin Gucci og Yves Saint Laurent, hefur kært netrisann Alibaba fyrir sölu á falsaðri vöru. Wall Street Journal greinir frá þessu.

Falsaðar vörur hafa lengi verið vandamál hjá Alibaba. Hefur fyrirtækið meðal annars varað fjárfesta við málshöfðunum gegn fyrirtækinu fyrir sölu á slíkum varningi.

Málið er höfðað fyrir bandarískum dómstólum og kemur fram í kærunni að Kering sé ósátt við athafnaleysi Alibaba gagnvart því að koma falsvarningi úr sölu á vefsíðu fyrirtækisins. Alibaba segir umkvartanir Kering hins vegar byggðar á sandi og fyrirtækið hafi staðið með framleiðendum gegn sölu á sviknum vörum.

Þetta er í annað sinn sem Kering höfðar slíkt mál á hendur Alibaba en það gerðist síðast í júlí á síðasta ári. Þá dró Kering hins vegar málshöfðunina til baka skömmu fyrir hlutafjárútboð Alibaba á bandarískum markaði.