Sérstakur saksóknari hefur ákært Eirík Sigurðsson, sem um árabil hefur verið kenndur við klukkubúðirnar 10-11, um meiri háttar brot gegn skattalögum þegar hann vantaldi tekjur sínar um 800 milljónir króna árið 2007 og komið sér hjá því að greiða 81,3 milljónir króna í fjármagnstekjuskatt. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Sérstakur saksóknari ákærði jafnframt Hjalta Magnússon, endurskoðanda Eiríks. Refsingar er krafist yfir þeim báðum auk þess sem saksóknari krefst þess að Hjalti verði sviptur löggildingu til endurskoðunarstarfa.

Einstaklingar ekki með heimild

Guðni Ásþór Haraldsson, lögmaður Eiríks, fékk frest til 6. febrúar næstkomandi til að kynna sér gögn málsins og taka afstöðu til þess hvort hann skili greinargerð um málið. Hann sagði í samtali við vb.is um skattamál sé að ræða sem snúi að því hvort einstaklingar megi draga frá tap af afleiðusamningum af hagnaði innan sama tekjuárs. „Skatturinn gerir athugasemd við þetta, að hann megi þetta ekki. Eiríkur taldi sig mega það og hans endurskoðandi,“ segir hann og bendir á að fyrirtæki hafi þessa heimild. „Menn töldu verið að mismuna mönnum að einstaklingar hafi hana ekki.“

Ekki náðist í Eirík Sigurðsson vegna málsins. Eiríkur stofnaði verslunina 10-11 en seldi hana til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar árið 1998. Verslunin er nú í eigu annarra aðila og tengist Eiríkur henni ekki í dag.

Stærra en mál Ragnars

Mál Eiríks er talsvert stærra en sambærilegt mál sem tengist Ragnari Þórissyni, sjóðsstjóra og stofnanda vogunarsjóðsins Boreas Capital. Hann er sakaður um að hafa ekki talið fram 120 milljóna króna fjármagnstekjur árið 2007 og svikið 12 milljónir króna undan skatti. Sérstakur saksóknari gaf út ákæru á hendur Ragnari vegna málsins í fyrrahaust. Aðalmeðferð í máli Ragnars hefst í héraðsdómi á morgun.