Fjármálaeftirlitið hefur kært verðbréfaviðskipti yfirmanns hjá Icelandair til Embættis héraðssaksóknara, sem þýðir að meint brot eru talin geta varðað þyngri refsingu en sektum. Frá þessu greinir fréttastofa Ríkisútvarpsins en þetta hefur Viðskiptablaðið fengið staðfest frá embættinu.

Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins greindi frá því í morgun að yfirmaður hjá Icelandair hafi verið sendur í leyfi vegna rannsóknar Fjármálaeftirlitsins á meintum brotum um verðbréfaviðskipti. Rannsóknin beinist að sögn Markaðarins að viðskiptum með bréf í félaginu í aðdraganda þess að Icelandair Group sendi frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar þann 1. febrúar síðastliðinn.