Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri Menntaskólans Hraðbraut, hefur kært Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra fyrir að leka trúnaðargögnum til fjölmiðla. Kemur þetta fram í bréfi sem Ólafur sendi ríkissaksóknara í dag.

Þá segir Ólafur í bréfinu að í júní árið 2010 hafi Katrín hafið „pólitíska aðför“ gegn Menntaskólanum Hraðbraut og honum persónulega. Hún hafi tekið á sig þá mynd að hún hafi sent DV upplýsingar úr Menntamálaráðuneytinu í þeim tilgangi að skaða orðspor skólans.

Enn fremur segir Ólafur í bréfinu að meintur leki Katrínar hafi haft þau áhrif að 210 nemendur sem voru í skólanum hafi misst vinnustað sinn og að 20 starfsmenn við skólann hafi tapað vinnu sinni.