Kærunefnd jafnréttismála vísaði á dögunum frá máli Gylfa Arnbjörnssonar gegn Reykjavíkurborg þar sem kæra barst ekki innan lögmælts sex mánaða frests.

Í byrjun mars í fyrra auglýsti Reykjavíkurborg laust til umsóknar starf sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs. Ellefu umsóknir bárust, frá sex konum og fimm körlum, en á endanum var Halldóra Káradóttir ráðin í starfið.

Gylfi kærði ráðninguna með kæru þann 16. janúar 2020. Í kæru segir að hann geri sér grein fyrir því að kærufrestur hafi verið liðinn en hann hafi ekki kært ráðninguna strax vegna hagsmuna hans í umsóknarferlum fyrir aðrar stöður. Það að kæra hefði getað haft neikvæðar afleiðingar í för með sér annars staðar.

Þar segir enn fremur að hann hafi fengið rökstuðning fyrir ráðningunni og fengið um miðjan júní. Þar hafi ekki verið getið um heimild til að bera hana undir önnur stjórnvöld, hvorki til umboðsmanns Alþingis né kærunefndar jafnréttismála. Bréfið hafi einnig verið þögult um kærufresti. Um brot á leiðbeiningarskyldu stjórnvalda væri því að ræða.

Gylfi byggði einnig á því að kæran ætti að koma til efnismeðferðar þar sem borgin hefði verið kærð til nefndarinnar í nokkuð hliðstæðu máli. „Svo sé ekki að sjá að [borgin] hafi [...] dregið einhvern lærdóm af þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið,“ er meðal þess sem segir í kæru.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að þegar sérstaklega stendur á sé heimilt að víkja frá sex mánaða kærufrestinum en þó megi hann aldrei verða lengri en eitt ár. Að mati nefndarinnar gátu umsóknir um önnur störf ekki réttlætt það að málskot drægist umfram hinn almenna kærufrest.

„Hið sama á við um það sjónarmið kæranda að hann kynni að hafa tekið aðra ákvörðun og sett fram kæru fyrr ef [borgin] hefði upplýst hann sérstaklega um heimild til að senda inn kæru til kærunefndarinnar sem og frest í þeim efnum. Þessi málatilbúnaður kæranda er raunar í nokkurri mótsögn við fyrra sjónarmið hans sem lagt var upp með í kæru hans,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar. Málinu var því vísað frá nefndinni.

Gylfi vildi ekki tjá sig við Viðskiptablaðið um niðurstöðu málsins þegar eftir því var leitað.