Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) vísaði nýverið frá kröfum landeigenda um að fella úr gildi framkvæmdaleyfi til viðhalds á vegum á Ströndum og hafnaði kröfum annarra landeigenda sama efnis.

Síðasta sumar veittir hreppsnefnd Árneshrepp Vesturverki leyfi til vegaviðhalds á 16 kílómetra kafla „frá brekku ofan Eyrar við Ingólfsfjörð að Hvalá í Ófeigsfirði“. Fyrir liggja þar gamlir vegslóðar en fyrirtækið fékk heimild til að bæta vegina, sex metra frá miðlínu í hvora átt. Framkvæmdin er talin nauðsynleg fyrir rannsóknarvinnu og undirbúning við Hvalárvirkjun. Upphaflega stóð til að hefja vinnuna að fullu síðasta sumar en því var frestað, meðal annars vegna fjölda kæra sem bárust.

Um eigendur tveggja jarða var að ræða. Annars vegar sex hlutaeigendur að jörðinni Seljanesi, sem samtals áttu tæplega 11% hut í henni, og hins vegar eigendur Eyrar. Kæru þeirra fyrrnefndu var vísað frá þar sem þeir töldust ekki hafa næga hagsmuni til að geta átt aðild að málinu.

Í úrskurði ÚUA, en nefndin var skipuð fimm nefndarmönnum í málinu, er tekið undir með landeigendum um að ýmsir hnökrar hafi verið á veitingu framkvæmdaleyfisins. Til að mynda hafi samningu fundargerða hreppsnefndar verið ábótavant og að umsagnar Minjastofnunar hafði ekki verið leitað áður en leyfið var veitt. Úr því var bætt á síðari stigum. Að mati nefndarinnar voru hnökrarnir ekki svo stórvægir að það varðaði ógildingu leyfisins.

„Við erum auðvitað ánægð með úrskurðinn. Hvað varðar sumarið þá verður unnið að frekari rannsóknum í vor og sumar ásamt því að áfram er unnið að seinni hluta skipulagsbreytinga vegna Hvalárvirkjunar. Aðrar framkvæmdir verða í lágmarki þar til vinnu við skipulagsbreytingar er lokið,“ hefur Bæjarins besta , sem fyrstur allra miðla sagði frá málinu, eftir Birnu Lárusdóttur upplýsingafulltrúa Vesturverks.