Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Fossa markaða hf. (FM) um kæruleyfi í matsmáli félagsins gegn félögunum Norðurvör ehf. og Selsvellir ehf. Fyrrnefndar félagið tengist Þorbirni Atla Sveinssyni en hið síðarnefnda Gunnari Frey Gunnarssyni. Báðir störfuðu þeir hjá Fossum en hættu í mars í fyrra. Deilan snýst um virði hlutabréfa þeirra í FM og Fossar Market Holding ehf. (FMH).

Bæði Þorbjörn og Gunnar áttu tæplega 2,7 milljón hluti í FM við starfslok. Um miðjan júní í fyrra gerði FM þeim tilboð upp á 8,2 milljónir fyrir hlutinn. Það tilboð byggði á hlutdeild félaganna í bókfærðu eigin fé FM miðað við ársreikning rekstrarársins 2017. Eðlilegt sé, að mati FM, að miða við bókfært virði eiginfjár í þessu tilvilli. Félagið hafi ekki fastar tekjur og því ekki hægt að finna markaðsvirði á hlutum byggt á margföldun á væntum framtíðartekjum eða hagnaði.

Sjá einnig: Hlutur í Fossum fyrir dómstólum

Því tilboði var hafnað enda töldu félögin tvö að virði bréfanna næmi ekki lægri fjárhæð en 30 milljónum. Þeir útreikningar voru, að sögn FM, byggðir á því að líta þyrfti til bókfærðs virðis eigin fjár, hagnað félagsins síðastliðin þrjú ár ásamt áætlun ársins 2018 og að bréfin hafi skilað rúmlega tíu milljónum króna í arð árin 2016 og 2017.

Í kjölfar þess var ákveðið að hefja innlausnarferli hlutanna og það samþykkt á hluthafafundi 29. júní 2018. Sáttafundur aðila um verð á hlutnum reyndist árangurslaus og fór FM því fram á að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta verðmæti hlutanna miðað við innlausnardaginn 29. júní 2018. Norðurvör og Selsvellir lögðu fram eigin matsbeiðni en hún var í tveimur liðum. Annars vegar yrði spurt hvert heildarverðmæti A hluta í FM væri á matsdegi og hins vegar hvert heildarverðmæti A og B hluta í FMH væri á matsdegi.

Kæruheimild ekki til staðar

Báðar matsbeiðnirnar voru lagðar fram án þess að dómsmál um álitaefnið hefði verið höfðað. Í málflutningi lögmanns félaga Þorbjörns og Gunnars sagði að FM og FMH hefðu hafnað öllum tillögum eða samvinnu við framkvæmd og framsetningu matsspurninganna. Þá telja þeir sig jafnframt óbundna af ákvörðun hluthafafundarins frá því í fyrra.

„[Norðurvör og Selsvellir] telja nauðsynlegt að fá mat á verðmæti varnaraðilans Fossa markaða hf., sem taki mið af verðmæti hans á matsdegi, og að lagt sé mat á verðmæti alls félagsins. Einnig telja sóknaraðilar nauðsynlegt að lagt sé mat á virði A-hluta sérstaklega. Takist ekki samkomulag um verð á hlutum hafi sóknaraðilar í hyggju að höfða mál á hendur varnaraðilum til viðurkenningar á rétti þeirra til innlausnar á grundvelli verðs sem taki mið af öllu verðmæti félagsins en til vara sem taki mið af verðmæti A-hluta í félaginu. Matsgerðinni sé ætlað að vera sönnunargagn í slíkri málshöfðun,“ segir í málsástæðukafla beiðni Norðurvarar og Selsvalla.

„[Starfsemi FM er] viðkvæm fyrir mannabreytingum þar sem tekjur byggist að miklu leyti á persónulegum tengslum starfsmanna við viðskiptavini og vinnu þeirra hverju sinni. Þannig hafi uppsagnir starfsmanna á fyrri hluta árs 2018 skilað sér í verulegri lækkun rekstrartekna á árinu 2018. [FM er] fámennt félag með um 13 starfsmenn og því geti breytingar í starfsmannahópi haft veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu hverju sinni,“ sagði á móti í matsbeiðni FM til rökstuðnings kröfum þeirra.

Í héraði var fallist á matsbeiðni FM en matsbeiðni félaganna tveggja var aftur á móti hafnað. Báðir úrskurðirnir voru kærðir til Landsréttar sem synjaði báðum beiðnunum. Var það gert á grundvelli þess að ágreiningur aðila laut ekki aðeins að virði hlutabréfanna heldur einnig að því hvort og á hvaða grundvelli réttur eða skylda til innlausnar bréfanna væri fyrir hendi.

FM sóttu um kæruleyfi til Hæstaréttar fyrir sitt leyti. Því var hafnað á þeim grundvelli að hvorki lög um meðferð einkamála né önnur lög kvæðu á um að heimilt væri að kæra úrskurð Landsréttar um þetta efni til Hæstaréttar.