Veitinga- og tónleikastaðurinn Kaffi Rosenberg hefur verið tekinn til gjaldþrotaskipta að því er kemur fram í Lögbirtingablaðinu. Í október síðastliðnum tóku nýir eigendur við rekstri staðarins þegar Ólafur Örn Ólafsson og Kári Sturluson, seldu hann eftir fimm mánaða rekstur. Á þeim tíma vildu Ólafur Örn og Kári ekki greina frá því hver hefði keypt staðinn. Að því er Viðskiptablaðið kemst næst voru það tveir lífeyrissjóðir sem óskuðu eftir gjaldþrotaskiptunum.

Annar eigendanna, Kári Sturluson, var um það leyti sem staðurinn var seldur flæktur í Sigur Rósar málið svokallaða en 35 milljónir króna höfðu horfið úr miðasölu fyrir tónleikaröð Sigur Rósar í Hörpu en Kári hafði þá annast málefni hljómsveitarinnar frá árinu 2005.

Í ljós kom að hann hafði fengið 35 milljóna króna fyrirframgreiðslu af miðasölu tónleikanna hjá forstjóra Hörpu, Svanhildi Konráðsdóttur. Þeim peningum virtist Kári síðan hafa ráðstafað í annað, viðburðinum og hljómsveitinni með öllu óviðkomandi.