Kaffibarinn, Vegamót og Hressingarskálinn hafa náð að festa sig í sessi í miðbæ Reykjavíkur. Aðeins einn þeirra skilaði hagnaði af rekstri í fyrra.

Skuldir veitinga- og skemmtistaðanna Vegamóta, Hressingarskálans og Kaffibarsins eru í öllum tilvikum hærri en eignir þeirra, samkvæmt ársreikningum síðasta árs. Tap var af rekstri Vegamóta og Hressó, en Kaffibarinn skilaði 2,5 milljóna hagnaði. Einn rekstraraðila Kaffibarsins, sem ekki vildi láta nafn síns getið, segir að reksturinn hafi þyngst eftir hrun. Stóraukinn ferðamannaiðnaður hafi þó vegið upp á móti auknum kostnaði.

Andri Björn Björnsson, annar eigenda og framkvæmdastjóri Vegamóta, tekur í sama streng hvað kostnaðinn varðar. Vegamót er einn fárra staða í miðbænum sem er kaffihús, veitingahús og skemmtistaður allt í senn. Hann segir kostnað við viðhald og starfsmannahald hafa stóraukist. Launagreiðslur í fyrra námu alls rúmlega 104 milljónum samkvæmt ársreikningi og starfsmenn voru 95.

Koma og fara

Það er ekki nýtt að skemmtistaðir í miðbænum fara margir hverjir í þrot skömmu eftir að þeir eru opnaðir. Erfitt virðist vera að festa sig í sessi en staðirnir þrír, Vegamót, Hressó og Kaffibarinn, eru með þeim rótgrónustu í miðbænum.

Nánar má lesa um afkomu veitingastaðanna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.