Gengið var frá sölu á Kaffibarnum í gærkveldi, en það voru Þorsteinn Stephenssen, framkvæmdarstjóri Hr. Örlygs og Svanur Kristbergsson, sem keyptu. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Kaffibarinn var í eigu framleiðslufyrirtækisins Sagnar ehf., sem er rekið af Baltasari Kormáki og Lilju Pálmadóttur. Baltasar segir að rekstur Kaffibarsins hafi ekki hentað lengur inn í starfsemi fyrirtækisins og því hafi hann verið seldur.

"Ég er bara kominn í aðra hluti, og fékk gott tilboð frá góðum aðilum, sem skilja út á hvað starfsemi staðarins gengur," segir Baltasar.

Þorsteinn segir aðdragandann að kaupunum vera stuttann og málið hafi komið inn á borð hjá sér í vikubyrjun, svo hafi verið gengið frá samningnum um klukkan átta í gærkveldi.

Þorsteinn hyggur ekki á áherslubreytingar í rekstri staðarins.