Rannsóknarsetur verslunarinnar á Bifröst hefur undanfarin ár skipað valnefnd sem hefur það hlutverk að velja jólagjöf ársins. Í fyrra var lífsstílsbók valin jólagjöf ársins, en að þessu sinni varð nytjalist fyrir valinu. Segir í umsögn dómnefndar að nytjalist sameini hönnun, hugvit og handverk og hún geti verið heimatilbúin eða fjöldaframleidd, innlend eða erlend. Aðalatriðið sé að hönnunin sameini notagildi og fagurfræði enda sé það alkunna að kaffi bragðist betur sé það borið fram í fallegum bolla.

Persónuleg gjöf sem hefur gildi

Sigurður Svavarsson, bókaútgefandi hjá Opnu útgáfufélagi, er einn þeirra sem sátu í valnefndinni í ár. Hann segir að valið sé alltaf dálítill samkvæmisleikur á hverju ári þar sem fólk úr ýmsum áttum setjist niður og fari yfir fjöldann allan af tillögum sem berist til nefndarinnar. „Við reynum að komast að einhverri niðurstöðu sem við getum verið sammála um. Það er alltaf eitthvað um málamiðlanir, en við reynum aðallega að rýna í stemninguna í samfélaginu og þjóðfélagsástandið.“

Sigurður segir niðurstöðuna að þessu sinni hafa verið að fólk væri að horfa til þess að gefa persónulegar gjafir sem hefðu gildi fyrir viðtakandann. „Við töldum okkur sjá dæmi um það víða í því hvernig ýmiss konar nytjalist hefur verið að seljast. Fólk horfir til þess að gefa eitthvað persónulegt sem hefur notagildi og jafnframt listrænt gildi. Við skoðuðum dálítið söluþróunina og lásum í þær línur,“ segir Sigurður.

Hann segir einnig að nefndin horfi vísvitandi framhjá því sem kallist sígildar jólagjafir, til dæmis bækur og geisladiska, en líti frekar á eitthvað sem gæti verið einhvers konar tilhneiging hjá kaupendum.

Jólaverslunin glæðist á ný

Í skýrslu valnefndarinnar er einnig að finna almenna spá um jólaverslunina og er þess vænst að jólaverslunin muni glæðast á ný á komandi jólum. Batinn eftir djúpa lægð ársins 2008 hafi verið hægur og stöðugur og heildarvelta í smásöluverslun sé enn um 15-20% minni að raunvirði en þegar hún var mest árið 2007.

Vísbendingar um aukinn kraft í innlendri eftirspurn, ásamt teiknum um aukna einkaneyslu, gefi hins vegar vonir um að jólaverslun verði með góðu móti í ár. Er þannig áætlað að jólaverslunin aukist um 4,2% frá síðasta ári að nafnvirði og aukningin nemi 4% að magni til sé leiðrétt fyrir áætluðum verðhækkunum á tímabilinu.

Þá er því spáð að velta í smásöluverslun í nóvember og desember verði um 84 milljarðar króna eða um 72 milljarðar án virðisaukaskatts. Þar af séu um 15 milljarðar umfram meðaltal annarra mánaða ársins og megi ætla að þeir séu vegna jólainnkaupa. Þetta jafngildi því að verslun þessa tvo mánuði verði um 45 þúsund krónum meiri á mann umfram meðaltal annarra mánaða ársins sem geri 180 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu.

Jólagjafahandbókin fylgir Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .