Hörður Jóhannesson og Björn Arnar Hauksson eru stofnendur Laugalækjar ehf., félags sem stofnað var nýlega. Laugalækur ehf. mun halda utan um rekstur kaffi- og gistihúss sem kennt verður við sama kennileiti, Laugalæk í Laugardal.

Kaffihúsið mun vera til staðar þar sem kvenfatabúðin Verðlistinn var áður til húsa og standa nú yfir framkvæmdir á húsnæðinu. Kaffihúsarekstur hefur lengi verið sameiginlegur draumur þeirra Harðar og Björns, og segjast þeir ánægðir að geta loks slegið til og látið reyna á reksturinn. Félagarnir eru báðir úr Garðabænum upprunalega, en búa nú sitt hvor sínu megin á hnattkringlunni – Hörður í Laugardal og Björn í Singapúr.

Láta æskudrauminn rætast

„Hugmyndin okkar, draumurinn, var að opna kaffihús sem býður upp á góðan mat og drykki. Við erum óttalegir sælkerar,“ segir Hörður. „Við sáum svo þetta hús á sölu og ákváðum að grípa tækifærið.“ Eins og fyrr segir hefur kaffihúsarekstur verið þeim Birni og Herði hugleikinn lengi, en innblásturinn að Laugalæk ehf. fengu þeir að miklu leyti frá Kaffihúsi Vesturbæjar.

Kaffihúsið á að vera eins konar „kaffihús á horninu“, ef svo má að orði komast, ekki svo ólíkt kaupmanninum á horninu. Frú Lauga, verslun sem selur matvöru beint frá býli, er svo til húsa örskammt frá, auk þess sem kjötvöruframleiðandinn Pylsumeistarinn er svo við sama kjarna. Þá eru einnig á svæðinu bakarí, ísbúð og önnur matvöruverslun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.