Kaffitár er ekki á meðal fyrstu kosta um veitingarekstur í brottfararsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, að mati valnefndar Isavia. Fyrirtækið hefur haft rekstur í Fríhöfninni í tíu ár. Isavia efndi til útboðs um rekstur verslana og veitingahúsa í brottfararsalnum í vor og er nú svo komið í ferlinu að viðræður eru hafnar við þá sem komust áfram. Sömuleiðis hefur þeim verið tilkynnt um niðurstöðuna sem ekki komust áfram í valinu og ekki verður rætt við.

Gert er ráð fyrir að um 5 til 9 veitingastaðir verði í brottfararsalnum. Samningur Kaffitárs og fleiri rekstraraðila rennur út um næstu áramót. Þar á meðal er IGS Ground Services (IGS), dótturfélag Icelandair Group. Fram kom hjá VB.is á dögunum að búið er að segja upp helmingi starfsfólks IGS í flugstöðinni og leggja niður 20 stöðugildi.

Komið hefur fram í fjölmiðlum að gengið verður til viðræðna við alþjóðlegu veitingakeðjuna Joe and the Juice. Gangi það eftir þá verður þetta fjórði safastaður fyrirtækisins sem opnar hér á landi. Tveir þeirra eru í Kringlunni og Smáralind og einn opnaði í síðustu viku í World Class í Laugum.

Daníel Kári Stefánsson, framkvæmdastjóri Joe & the Juice á Íslandi, sagðist ekkert geta tjáð sig um málið þegar eftir því var leitað.