Isavia var sýknað af öllum kröfum AHAB ehf, áður Kaffitár ehf., fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á dögunum. Kaffitár stefndi Isavia í janúar 2019 vegna samkeppni um leigu á verslunarrými í Flugstöð Keflavíkurflugvallar, sem Lagardère sigraði. Kaffitár fór fram á allt að 304 milljóna króna bætur með vöxtum og dráttarvöxtum.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia segir mikilvægt að fá loksins niðurstöðu í málið: „Við efuðumst hins vegar ekki um að leikreglur samkeppninnar stæðust skoðun og að þeim hafi verið fylgt til hins ítrasta og það er nú staðfest með dómi héraðsdóms," segir hann.

Kaffitár taldi eigið tilboð eitt gilt

Kaffitár taldi að félagið hafi, af ýmsum ástæðum, skilað inn eina gilda og þar með hagstæðasta tilboðinu í samkeppninni. Isavia mat tilboð Kaffitárs aftur á móti hið lakasta af þeim sem komust í gegnum forval. Þá taldi Kaffitár Isavia hafa sýnt af sér ólögmæta og saknæma háttvísi við útboðið.

Ýmislegt fleira var týnt til í málsástæðum og lagarökum Kaffitárs, líkt og nánar er rakið neðst í fréttinni, en dómurinn taldi bótaskyldu Isavia hins vegar einungis geta byggt á því að félagið hefði með saknæmum hætti farið á svig við þá útboðsskilmála sem það setti sjálft eða að öðru leyti brotið gegn framkvæmd þeirra. Kaffitár taldi Isavia meðal annars hafa brotið gegn eigin skilmálum með því að taka við nýjum tilboðum frá sumum bjóðendum eftir að frestur var liðinn. Tilboð hafi þannig í raun verið ógild.

Ekki nýtt tilboð

Dómurinn féllst hins vegar á það með Isavia að ekki hafi verið um ný tilboð að ræða, samsettum tilboðum hafi verið skipt upp í veitingar annars vegar og verslun hins vegar, að ósk Isavia. Þá lá fyrir að Lagardère var með hæsta tilboðið fyrir og eftir að samsettu tilboði var skipt upp. Í dómnum segir meðal annars:

„Með vísan til þess er að framan greinir verður ekki talið að stefndi hafi brotið rétt á stefnanda með því að hafa ekki farið eftir skilmálum í útboðinu eins og byggt er á af hálfu stefnanda eða að hann hafi  verið með eina gilda tilboðið. Er því hafnað að einkunnagjöf stefnda hafi verið markleysa eða að ósamræmi hafi verið á milli samninga og tilboða. Er ekki fallist á það með stefnanda að tilboð Lagardère hafi ekki verið gildandi nema því væri tekið í heild sinni, því hafi verið skilað of seint eða það verið í ósamræmi við skilmála samkeppninnar. Þá er því hafnað að samkeppnin hafi verið til málamynda eða að brotið hafi verið gegn samkeppnislögum enda hefur stefnandi ekki fært fram viðhlítandi rök fyrir umræddum fullyrðingum sínum. Samkvæmt framansögðu og í ljósi þess að tilboð stefnanda var ekki hagstæðasta tilboðið samkvæmt niðurstöðu valnefndar, er hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að hann hafi aðeins getað komið til álita sem sigurvegari keppninnar[...]".

Þá var því hafnað að háttsemi Isavia við útboðið hafi verið ólögmæt og saknæm. Var það því niðurstaða dómsins að sýkna Isavia af öllum kröfum Kaffitárs um bótaskyldu í málinu. Málskostnaður milli aðila var látinn niður falla.

Innkaupalög og stjórnsýslulög áttu ekki við

Kaffitár hélt því fram að Isavia hefði gerst brotlegt við óskrifaðar meginreglur stjórnsýsluréttar um jafnræði, auk þess að hafa brotið lög um opinber innkaup og samkeppnislög.

Dómurinn hafnaði því að stjórnsýslulög og opinber innkaup ættu við í máli þessu. Dómurinn taldi samkeppnina ekki útboð í skilningi innkaupalaga, heldur hafi verið um að ræða ráðstöfun á leigurými sem Isavia hafi metið hagkvæmast að velja í með því að efna til samkeppni. Þá hafnaði dómurinn því að Isavia hefði brotið samkeppnislög, enda hefði Kaffitár ekki fært fram viðhlítandi rök fyrir slíkum fullyrðingum.