Sjö sveitarfélög eru yfir leyfilegu skuldaviðmiði, sem þýðir að þann 1. janúar síðastliðinn skulduðu þau meira en 150% af reglulegum tekjum sínum. Í fyrra voru 13 sveitarfélög yfir þessu viðmiði. Fjárhagsstaða sveitarfélaga hefur því batnað töluvert milli ára.

Það sveitarfélag sem stendur fjárhagslega verst er Reykjanesbær. Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins (A- og B-hluti) námu 43,6 milljörðum króna um síðustu áramót, sem jafngildir 3,6 milljónum króna á hvern íbúa 16 ára og eldri. Þrátt fyrir staðan sé slæm suður með sjó skánaði hún aðeins milli ára. Skuldaviðmiðið lækkaði úr 234% í 231%.

Staðan er næstverst í Fljótsdalshéraði á Austurlandi en þar rofaði samt mikið til milli ára. Fljótsdalshérað ver verst setta sveitarfélagið í fyrra með skuldaviðmið upp á 246% en um síðustu áramót var það komið niður í 207%. Heildarskuldir Fljótsdalshérað nema tæpum 8,8 milljörðum króna sem jafngildir 3,3 milljónum á hvern íbúa 16 ára og eldri.

Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er áhugaverð og þá sérstaklega í því ljósi að borgin rekur stórt orkufyrirtæki — Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Heildarskuldir og skuldbindingar borgarinnar námu 301,6 milljörðum króna 1. janúar síðastliðinn. Þetta jafngildir 3,1 milljón króna á hvern borgarbúa, sem náð hefur 16 ára aldri. Skuldir á hvern íbúa eru einungis hærri í tveimur sveitarfélögum, en það eru Reykjanesbær og Fljótsdalshérað.

Í reglugerð er ákvæði, sem heimilar að undanskilja veitu- og orkufyrirtæki við útreikninga á skuldaviðmiði, þess vegna er skuldaviðmið borgarinnar ekki hærra en raun ber vitni. Skuldahlutfallið, þá er staða OR meðal annars tekin með í reikninginn, er hins vegar 210% og er það einungis hærra í Reykjanesbæ og Fljótsdalshéraði. Skuldir borgarsjóðs (A-hluti) nema 80,7 milljörðum króna, sem jafngildir ríflega 800 þúsund krónum á hvern íbúa.

Skuldaviðmiðið er reiknað út af Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) og hefur Viðskiptablaðið fengið þá útreikninga.  EFS er nefnd innanríkisráðuneytisins. Skuldaviðmið er ekki það sama og skuldahlutfall. Skuldahlutfall er fundið út með því að deila tekjum í skuldir og skuldbindingar en þegar skuldaviðmiðið er reiknað er búið að taka tillit til nokkurra atriða í rekstri sveitarfélaga, sem koma til frádráttar á skuldum og skuldbindingum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .