*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 17. janúar 2018 09:00

Kaflaskil á fasteignamarkaði

Hækkun fasteignaverðs í fyrra var sú mesta á einu ári frá árinu 2005, eða um 19%, en síðan hefur dregið úr henni.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,2% í desember. Þar af hækkaði verð á fjölbýli um 0,4% og verð á sérbýli lækkaði um 0,4%. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafði nú í desember hækkað um 1,8% á síðustu sex mánuðum, en hækkaði um 13,7% næstu sex mánuði þar á undan. 

Tími mikilla verðhækkana virðist því nær örugglega vera liðinn og vænta má að meiri ró verði á þessum markaði á næstu misserum segir í Hagsjá Landsbankans. Fasteignaverð hækkaði um 18,9% milli áranna 2016 og 2017, fjölbýli um 18.6% og sérbýli um 19,4%. Árið á undan hafði verðið hækkað um 11%. Hagfræðideild Landsbankans hafði spáð 19% hækkun nú. 

Hækkunin í fyrra er sú mesta frá árinu 2005, þegar hún var 35%. Meðalhækkunin frá árinu 2002 til 2017 var 9% á milli ára þannig að hækkunin í fyrra er rúmlega tvöfalt meiri. Raunverð fasteigna hækkaði um 21,5% milli áranna 2016 og 2017 sem er næstmesta hækkun frá árinu 2005. Meðalhækkun frá árinu 2000 er 5,4% þannig að raunhækkunin 2017 var fjórföld á við meðaltalið frá aldamótum. 

Viðskipti með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu voru minni í desember en síðustu tvo mánuði þar á undan og gildir það bæði um fjölbýli og sérbýli. Viðskiptin í nóvember voru engu að síður álíka mikil og þau voru að meðaltali á árinu.

Sé litið á fjölda viðskipta yfir lengra tímabil má sjá að þeim fækkaði töluvert frá síðasta ári og voru svipuð og á árinu 2015. Fækkun viðskipta var hlutfallslega mun meiri með sérbýli en þar var fækkun viðskipta um 16%. Viðskiptum með fjölbýli fækkaði um 5% milli ára. Sjö ára tímabili síaukinna viðskipta á höfuðborgarsvæðinu lauk því á árinu 2016.

Á síðustu misserum hafa tveir meginþættir togast á sem áhrifaþættir verðbólgu - fasteignaverð og styrking gengis. Hefði fasteignaverð ekki hækkað með viðlíka hætti og raunin var hefði mælst verðhjöðnun hér á landi í nokkurn tíma. 

Verðtölurnar í nóvember sneru þessari þróun algerlega við þar sem fasteignaverðið dró verðlag og þar með verðbólgu niður á við. Svipaða sögu má segja um desember hvað breytingar á fasteignaverði varðar. Eins og alltaf er varasamt að horfa mjög mikið á niðurstöður einstakra mánaða við mat á verðþróun á fasteignamarkaði segir í greiningu hagdeildar Landsbankans. 

Samanburður milli ára segir ávallt sína sögu en engu að síður bendir þróun síðustu mánaða óneitanlega til þess að kaflaskil hafi orðið á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu að mati bankans.