Í kosningabaráttu sinni fyrir forsetakosningarnar í austur Afríku ríkinu Rúanda lofaði Paul Kagame forseti uppbyggingu innviða, aukinni framleiðni í landbúnaði og ferðamennsku. Lofaði hann til að mynda að malbika 2.500 vegi. Á sama tíma vara hagfræðingar við að farið sé að draga úr vexti hagkerfisins, sem jókst um 1,7% á fyrsta ársfjórðungi ársins, sem er minnsti ársfjórðungsvöxtur í næstum áratug í landinu.

Með sigrinum gegn hinum óþekkta Frank Habineza frá stjórnarandstöðuflokknum Lýðræðislega græningjaflokknum framlengir Kagame völd sín til ársins 2024, en hann hefur þegar verið við völd í 17 ár í landinu. Hefur hann sagt þetta verða sitt síðasta, en strangt til tekið gæti hann boðið sig fram í tvö 5 ára kjörtímabil til viðbótar.

Nýtur mikils vestræns stuðnings, en ekki vestræns kosningaeftirlits

Tók hann völdin eftir fjöldamorðin í landinu árið 1994 milli Hútua og Tútsa, og er honum af mörgum þakkað það að þau voru stöðvuð. Til eru þó aðrar söguskýringar sem stjórnvöld halda ekki mjög á lofti.

Hefur landið notið mikillar velvildar vestrænna ríkja og fengið mikinn efnahagslegan stuðning, en nú heyrist í auknum mæli gagnrýni um ofsóknir gegn stjórnarandstæðingum í landinu, sem áttu erfitt með að fá að halda úti kosningabaráttu gegn Föðurlandsfylkingu forsetans.

Enginn eftirlitsmaður frá Evrópusambandinu var við kosningarnar, þó samband austur afríkuríkja sagði þær hafa verið frjálsar. Hlaut Kagame um 99% atkvæða, eða atkvæði um 6,65 milljón kosningabærra íbúa landsins.