Gréta María Bergsdóttir var nýlega ráðin inn sem ráðgjafi og viðburðastjóri til almannatengslafyrirtækisins Suð- vestur. Hún var áður verkefna- og viðburðastjóri hjá Háskólanum í Reykjavík og hún segist geta nýtt sér reynslu sína í nýju starfi.

„Ég hafði fylgst með þeim síðan þær stofnuðu fyrirtækið í haust. Mér fannst þetta ótrúlega flott fyrirtæki og flottar konur. Mig langaði bara að ganga til liðs við þær, vera hluti af þessu og leggja mitt af mörkum. Þær tóku mér fagnandi og hingað er ég komin. Ég hef víðtæka reynslu af verkefna- og viðburðastjórnun og það er alveg þörf á því hjá fyrirtæki sem veitir ráðgjöf og skipuleggur viðburði. Reynslan mín nýtist því vel hér.“

Ávísun á góðan nætursvefn

Gréta María á þrjár dætur og eiginmann og hún segir að lunginn úr frítímanum sé nýttur í faðmi fjölskyldunnar. „Við erum mikið saman og við reynum að fara í sund nokkrum sinnum í viku. Það er gott til að vinda ofan af okkur eftir vinnu- og skóladaginn. Alger ávísun á góðan nætursvefn er að fara í heita pottinn. Þetta er svo frábær heilsulind og félagsmiðstöð.“

Hjónin fara einnig árlega saman í krefjandi göngur. „Síðast fórum við á kajak yfir Ísafjarðardjúp og gengum svo yfir á Jökulfirðina. Við enduðum síðan á sveitaballinu sem haldið er árlega í Ögri. Við erum í frábærum félagsskap, með gömlum vinum úr menntó. Þetta eru göngur sem maður lifir á allt árið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .