Travis Kalanick, fyrrum framkvæmdastjóri og einn stofnenda Uber, hefur sagt sig úr stjórn leigubílafyrirtækisins og selt nær öll hlutabréf sín í því. Financial Times greinir frá .

Kalanick tók við sem framkvæmdastjóri félagsins árið 2010, þegar það var aðeins 10 mánaða gamalt sprotafyrirtæki, og stýrði því fram á mitt ár 2017, en þá sagði hann af sér vegna þrýstings fjárfesta í tengslum við hneykslismál sem upp höfðu komið innan fyrirtækisins.

Síðastliðna tvo mánuði hefur Kalanick selt yfir 300 milljarð króna virði af hlutabréfum sínum í félaginu. Gangverð þeirra er í dag um þriðjungi lægra en útboðsgengið í frumútboði félagsins fyrr á þessu ári, og hefur verið um nokkurt skeið. Heildarvirði félagsins samkvæmt útboðsgenginu var 82 milljarðar dollara, um 10 þúsund milljarðar íslenskra króna.

Þegar tilkynnt var um ráðahaginn í gær sagði Kalanick Uber hafa verið hluta af lífi sínu síðastliðinn áratug, en að nú þegar áratugurinn væri á enda fyndist honum réttur tími til að segja skilið við Uber og einbeita sér að nýjum verkefnum. Hann myndi þó áfram fylgjast með gangi fyrirtækisins og hvetja það til dáða af hliðarlínunni.