Hvannir, dótturfélag fasteignafélagsins Kaldalóns, hefur fest kaup á fasteign að Völuteig 31A í Mosfellsbæ fyrir 650 milljónir króna. Húsnæðið hýsir starfsemi Borgarplasts og er langtíma leigusamningur í gildi um eignina, að því er kemur fram í tilkynningu Kaldalóns til Kauphallarinnar.

Seljandinn er VT31 ehf., dótturfélag AU 2, sem heyrir undir framtakssjóðinn Umbreytingu sem keypti Borgarplast árið 2018.

Kaldalón áætlar að rekstrarhagnaður (NOI) hækki um 44 milljónir króna á ársgrundvelli við kaupin.

Greiðslan fer fram með lántöku, reiðufé og útgáfu nýs hlutafjár í Kaldalóni sem nemur 175 milljónum að markaðsvirði. Gengi útgáfunnar nemur 1,86 krónum á hlut en það miðast við meðalgengi tíu viðskiptadaga fyrir samþykkt kauptilboð í eignina.

Sjá einnig: Kaldalón á aðalmarkað í haust

Kaldalón hefur að undanförnu lagt áherslu á tekjuberandi fasteignir, meðal annars með kaupum á vöruhúsum, iðnaðar- og geymsluhúsnæði. Í október tilkynnti Kaldalón um kaup að andvirði tæplega 5 milljörðum króna á fasteignum að Suðurhrauni 10, sem hýsir meðal annars vöruhús Ikea, og Íshellu 1 ásamt fasteignum að Fiskislóð 23-23. Samstæðan keypti á síðasta ári vöruhúsnæði við Víkurhvarf 1 Kópavogi. Kaldalón á auk þess 50% hlut í geymsluhúsnæði að Tangavegi á Grundartanga sem hefur verið leigt undir gagnaver að hluta.