Vladímír Pútín lýsti því yfir í gær að stjórnvöld töldu sig ekki lengur skuldbundin ákvæðum Samnings um hefðbundinn herafla í Evrópu (e. Conventional Forces in Europe Treaty) og verði ekki leyst úr deilum um innleiðingu samningsins muni Rússar segja honum upp. Þetta kom fram í árlegri stefnuræðu forsetans í gær en hún verður að öllum líkindum hans síðasta, þar sem að gengið verður til forsetakosninga á næsta ári og stjórnarskráin meinar forseta að setja lengur en í tvö kjörtímabil.

Ræðan þótti vera til marks um að Pútín sé reiðubúinn að leggja meira undir í þeirri refskák sem hann hefur teflt við ráðamenn á Vesturlöndum undanfarin misseri. Samningurinn um hefðbundinn herafla í Evrópu var gerður við lok kalda stríðsins og hefur leikið lykilhlutverk í að takmarka hernaðaruppbyggingu aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO) og fyrrum aðildarríkja Varsjárbandalagsins og draga úr tortryggni þeirra á milli. Viðauki var gerður við samninginn árið 1999. Hann hefur þó ekki tekið í gildi þar sem að sum þeirra þrjátíu ríkja sem skrifuðu undir hafa ekki enn staðfest hann. Pútín sagði í stefnuræðu sinni að í raun væru Rússar eina ríkið sem stæði við framkvæmd samningsins og tími væri kominn til að önnur ríki gerðu slíkt hið sama. Hann bætti því að á meðan að þetta ástand ríkti þá notuðu aðildarríki NATO tækifærið og ykju áhrif sín í ríkjum sem liggja nálægt Rússlandi.

Reyndar eru ekki allir sammála mati Pútíns um að Rússar stæðu við framkvæmd samningsins. Aðspurður um yfirlýsingu forsetans svaraði Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, að Rússar hefðu ekki enn lokið við að draga herlið sitt frá Georgíu og Moldóvu. Aðilar samningsins munu staðfesta hann um leið og þeir hafa gert það.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.