Breska blaðið The Guardian fjallar í dag um Kaupþing í London, sem blaðið segir vera lánveitanda sem segir já við djörfustu lántakendur Bretlands.

Kaupþing hafi á undanförnum átta árum verið meðal ötulustu lánveitenda fasteignabraskara og annarra aðila viðskiptalífsins sem skera sig úr fjöldanum. Blaðið veltir upp þeirri spurningu hvor Kaupþing hafi tekið stærri bita en þeir ráða við að tyggja.

The Guardian segir lista yfir lánveitingar Kaupþings tilkomumikinn. Bankinn hafi fjármagnað yfirtöku Somerfield árið 2005. Einnig hafi Kaupþing ráðlagt Mike Ashley við yfirtöku hans á Newcastle fyrir ári síðan, fyrir 134 milljónir punda og Kaupþing sé einnig að útvega fjármögnun hæstu byggingar Evrópu sem stendur til að byggja í London svo dæmi séu nefnd.

Nú hafi Kaupþing hins vegar dregið sig til baka í lánveitingum, enda áhyggjuefni fyrir bankann að fasteignaverð, sem lækkaði um 20% í fyrra, gæti lækkað enn frekar. Englandsbanki hefur varað við því að vanskil upp á 5 milljarða punda gætu riðið yfir fjármálageirann.

Ef það gerist segir The Guardian að Kaupþing standi einna verst að vígi til að verjast því, þar sem bankinn taki stöðu (e. equity position) í sumum þeim verkefnum sem hann lánar til.

Í grein The Guardian segir að lokum að greiningaraðilum þyki aðdáunarvert hvernig Kaupþing nái markmiðum sínum um að minnka kostnað. Kaupþing hafi nú skorið niður og losað um fjármagn upp á 1 milljarð punda með aðhaldsaðgerðum.

The Guardian endar svo á því í umfjöllun sinni að benda á að árið 2005 hafi Kaupþing kynnt áætlun sína um að tvöfalda fjölda starfsmanna bankans í London í 900. Nú séu slíkar áætlanir fjarstæðukenndar.

Sjá grein The Guardian.