Kaliforníuríki í Bandaríkjunum myndi teljast eitt og sér sjötta stærsta hagkerfi heims og fór það nýlega uppfyrir Frakkland, en árið 2014 var það í áttunda sæti.

Þökk sé góðum árangri í hagkerfi þess á síðasta ári og sterkri stöðu Bandaríkjadalsins er það komið uppfyrir franska hagkerfið sem er í sjöunda sæti með verga landsframleiðslu sem nemur 2.420 milljörðum Bandaríkjadala. Í áttunda sæti er Indland með 2.090 milljarða samkvæmt nýjustu tölum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Íslenskar rætur aðalhagfræðings Kaliforníu

Í Kaliforníu er fjölbreytt atvinnulíf með nokkrum sterkum kjörnum eins og tölvuiðnaðurinn í svokölluðum Kísildal (Silicon Valley) og kvikmyndaiðnaðurinn í Hollywood. Jafnframt hefur iðnaðarframleiðsla og landbúnaður staðið sig vel þrátt fyrir mikla þurrka segir Irena Asmundsson aðalhagfræðingur fjármálaráðuneytis Kaliforníu.

Þetta fjölmennasta ríki Bandaríkjanna hefur staðið sig betur en restin af landinu í að skapa ný störf og var verg landsframleiðsla í ríkinu árið 2015 2.460 milljarðar, með um 4,1% hagvöxt. Á sama tíma er hagvöxtur í Bandaríkjunum 2,4% og var vöxtur nýrra starfa í landinu einungis 0,8% á fyrsta ársfjórðungi ársins.

Þess má geta að aðalhagfræðingurinn Irena Asmundson á sér íslenskar rætur en afi hennar Vigfus. S. Asmundson var fæddur á Íslandi 1895 og var prófessor við UC Davis.