Gengisstyrking evrunnar gagnvart Bandríkjadal að undanförnu hefur aukið á þrýstinginn um að Seðlabanki Evrópu grípi inn í á gjaldeyrismörkuðum. Styrkingin hefur leitt til harmkvæla meðal evrópskra útflytjenda og stjórnmálamanna og telja margir að inngrip seðlabanka á gjaldeyrismarkaði kunni að vera yfirvofandi.

Gengi evru hefur verið yfir 1,40 Bandaríkjadal í nokkurn tíma en sérfræðingar telja einsýnt að svo hátt gengi komi til með að skaða útflutningsiðnað aðildarríkja Efnahags- og myntbandalagsins verulega. Gengi evru náði sögulegu lágmarki gagnvart Bandaríkjadal í októbermánuði árið 2000 en síðan þá hefur það styrkst um sjötíu prósent.

Þrátt fyrir að evran hafi veikst lítillega á mörkuðum í gær spá margir sérfræðingar áframhaldandi styrkingu gagnvart Bandaríkjadal á næstu misserum. Væntingar eru um að bandaríski seðlabankinn komi til með lækka vexti enn frekar á næstunni og á sama tíma hafa forráðamenn evrópska seðlabankans ítrekað látið í veðri vaka að vaxtalækkun sé ekki í spilunum.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.