Seðlabanki Íslands hefur kallað eftir frekari gögnum um viðskipti með rafrænt skráð skuldabréf í krónum fyrir aflandskrónur, sem geymdar voru hjá erlendum bankastofnunum eins og Deutsche Bank. Viðskiptablaðið fékk þau svör hjá Seðlabankanum að enn væri of snemmt að segja hvort og þá til hvaða ráðstafana yrði gripið kæmi í ljós að fólk hefði  misnotað undanþágu í reglum um gjaldeyrismál.

Þeir sem eiga svokallaðar aflandskrónur hafa komið þeim til Íslands framhjá gjaldeyrishöftum með því að kaupa skuldabréf sem innlend eignarhaldsfélög gefa út. Í reglum Seðlabankans um gjaldeyrismál hefur verið undanþága sem felur í sér heimild erlendra fjármálafyrirtækja til að kaupa fjármálagerninga, eins og skuldabréf, í krónum með úttektum af erlendum reikningum sem geyma aflandskrónur. Var þá fyrst og fremst miðað við að fjármálafyrirtækin gætu ávaxtað krónurnar, sem liggja á vaxtalausum reikningum, hér á landi. Nú hefur þessi undanþága verið skýrð enn frekar þannig að einungis er heimilt að kaupa verðbréf sem eru veðhæf í viðskiptum við Seðlabankann. Það eru þá helst íbúðabréf útgefin af Íbúðalánasjóði og ríkisbréf.

Magma Energy fór þessa leið

Áður en undanþágan var skýrð bar á því í sumar eignarhaldsfélög hér á landi gáfu út skuldabréf sem keypt voru með aflandskrónur og þær svo notaðar til fjárfestinga. Þessa leið fór Magma Energy meðal annars. Viðskiptablaðið hefur séð tölvupóstsamskipti þar sem Seðlabankinn var spurður hvort þessi leið væri ekki í samræmi við allar reglur. Svar Seðlabankans var ekki afdráttarlaust, hvorki að þetta væri heimilt né óheimilt. Einungis var vísað í reglurnar. Að minnsta kosti einhverjir sem fóru þessa leið í sumar töldu sig ekki vera að fara á svig við gjaldeyrishöftin.

Grunur um misnotkun

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði samt á fundi í ágúst að „einhver misnotkun" hafi átt sér stað sem væri verið að skoða. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins var aldrei ætlunin að opna þessa leið fyrir fjárfestingar í fyrirtækjum hér á landi. Már sagði að útlendingar gætu keypt það sem þeim sýndist á Íslandi. Þeir þyrftu bara að skipta gjaldeyri yfir í krónur til þess.