Texti í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Íslandspóst ohf. (ÍSP) kemur ekki heim og saman við ákvæði sáttar fyrirtækisins við Samkeppniseftirlitið (SKE) frá 2017. Síðarnefnda stjórnvaldið mun kalla eftir frekari skýringum á ályktunum þeirrar fyrri og að þeim fengnum taka afstöðu til þess hvort nauðsynlegt sé að taka uppgjör og kostnaðarskiptingu ÍSP til skoðunar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SKE . Eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út sendi Viðskiptablaðið fyrirspurn á SKE. Þar var spurt hvernig texti, sem birtist á síðu 43 í skýrslunni, samræmdist texta sem finna má í sáttinni.

Í skýrslunni segir meðal annars að við útreikning á kostnaði við þá starfsemi ÍSP, sem félagið hefur einkarétt á, er gert ráð fyrir því að einkarétturinn standi undir öllum sameiginlegum og föstum kostnaði sem honum tengist.

„Önnur starfsemi félagsins sem er í samkeppni er ekki látin bera neina hlutdeild í sameiginlegum föstum kostnaði jafnvel þótt samkeppnisreksturinn nýti sér sömu framleiðsluþættina. [...] Augljóslega skekkir þetta samkeppnisstöðu keppinauta sem þurfa við sína verðlagningu að reikna með bæði breytilegum og föstum kostnaði við þá starfsemi sem er í samkeppni við ÍSP,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

„Ljóst er að sú lýsing á kostnaðaruppgjöri sem fram kemur í viðkomandi málsgrein efst á bls. 43 í skýrslu Ríkisendurskoðunar á ekki við um þá aðferðafræði sem kveðið er á um í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins,“ segir í tilkynningu SKE.

Með fyrrgreindri sátt var komið á fót eftirlitsnefnd með framkvæmd hennar en meðal verkefna hennar er að leggja mat á uppgjör mismunandi samkeppnisþátta ÍSP.

„Að fengnum frekari skýringum á ályktunum Ríkisendurskoðunar mun Samkeppniseftirlitið taka afstöðu til þess hvort nauðsynlegt sé að taka uppgjör og þ.m.t. kostnaðarskiptingu Íslandspósts til skoðunar, annað hvort af hálfu eftirlitsnefndarinnar eða Samkeppniseftirlitsins,“ segir á vef SKE.