„Við erum að setja þessa vinnu í gang. Menn eru bjartsýnir," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, en í síðustu viku hófust viðræður milli fulltrúa launþega (ASÍ) og fulltrúa atvinnurekenda (SA) vegna endurskoðunarákvæðis kjarasamninga sem miðast við 15. febrúar næstkomandi. Þá renna flestir samningar hjá ríkinu út í mars.

Gylfi segir að fljótlega verði kallað eftir aðkomu ríkisins að þessari vinnu. „Þetta er ekki bara kjarasamningsgerð heldur tilraun til þess að móta sameiginlega framtíðarsýn," segir hann.

Vinnan fer fram í þremur hópum, segir hann. Einn hópur fjallar um kjaramál, annar um velferðarmál og þriðji um atvinnu- og efnahagsmál.