Youcef Yousfi, olíumálaráðherra Alsír kallaði eftir því í dag að OPEC, samtök olíuútflutningslanda, minnki olíuframleiðslu og hækki olíuverð.

Alsír er meðlimur í samtökunum, en ríkið hefur átt í miklum erfiðleikum í kjölfar lækkandi olíuverðs undanfarna mánuði.

"Frá okkar bæjardyrum séð verður OPEC að skerast í leikinn og leiðrétta ójafnvægi og minnka framleiðsluna til þess að hækka verð og verja tekjur aðildarríkja sinna," sagði Yousfi við fjölmiðla í Alsír.

Alsír á um 200 milljarða dala gjaldeyrisvaraforða sem nægir öllum innflutningi næstu árin, en ríkið er mjög háð tekjum af olíulindum sínum. 97 prósent af gjaldeyristekjum koma þaðan og 60 prósent ríkisútgjalda eru greidd með olíutekjum.

Búið er að tilkynna um aðhaldsaðgerðir vegna ástandsins. Ekki verður ráðið í störf í opinbera geiranum og gert er ráð fyrir því að ýmis innviðaverkefni, eins og byggingar vega, frestist.