Seðlabanki Íslands kynnti í síðustu viku ákvörðun peningastefnunefndar um að hækka stýrivexti um eitt prósentustig og eru þeir því 3,75% eftir hækkunina. Samkvæmt nýjustu könnun Seðlabankans á væntingum markaðsaðila var þessi hækkun viðbúin, þótt hún hafi líklega verið í hærri kantinum miðað við spár.

Seðlabankinn grípur til þessara aðgerða vegna áframhaldandi aukningar verðbólgu og versnandi verðbólguhorfa, en í apríl mældist verðbólga 7,2%. Samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga aukist í rúmlega 8% á þriðja ársfjórðungi, sem er tæpum þremur prósentum meiri verðbólga en spáð var í febrúar. Þrátt fyrir að samspil vaxtahækkana og hertra lánþegaskilyrða muni hægja á verðhækkun húsnæðis og innlendri eftirspurn séu að sama skapi ýmsir þættir til staðar sem kunni að ýta undir verðbólgu.

Niðurlag yfirlýsingar peningastefnunefndar var afdráttarlaust og telur nefndin líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar frekar á næstu mánuðum til að koma böndum á verðbólguna innan ásættanlegs tíma. „Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara."

Aukinn þrýstingur hagvaxtaraukans

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri vakti athygli á þeim áhrifum sem hinn svokallaði hagvaxtarauki muni hafa á verðbólgu og vaxtastig. Í riti Peningamála kemur fram að viðbótarlaunahækkanir vegna hagvaxtaraukans valdi auknum verðbólguþrýstingi sem leiði til þess að verðbólga hjaðni hægar en hún hefði annars gert. Seðlabankinn þurfi að mæta þessum aukna þrýstingi með því að herða taumhald peningastefnunnar til að ná verðbólgumarkmiði þegar frá líður.

Þá kemur fram að meginvextir Seðlabankans verði 0,25 prósentum hærri að meðaltali í ár og 0,5 prósentum hærri út árið 2025 en þeir hefðu ellegar verið hefði hagvaxtaraukinn ekki verið virkjaður. Að sögn Ásgeirs þurfi að hugsa vel um launahækkanir ofan á þetta háa verðbólgustig. Innflutt verðbólga sé umtalsverð og í því ljósi þurfi að huga að því að vernda kaupmátt með einum eða öðrum hætti. Hann bendir á að ríkissjóður kunni að hagnast að einhverju leyti á auknum umsvifum og verðbólgu en mikilvægt sé að hann sýni aðhald.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tekur undir með Ásgeiri og bendir á að í fjármálaáætlun sé áhersla lögð á að slakinn hafi horfið úr hagkerfinu og því sé ekki rétti tíminn til raunaukningar ríkisútgjalda. „Við erum að vinna niður hallann og sýnum með því aukið aðhald í ríkisfjármálum á komandi árum."

Nýti ekki verðbólgu til aukins hagnaðar

Á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans lögðu Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, bæði áherslu á að atvinnulífið mætti ekki nýta sér þessa miklu verðbólgu til að hækka hagnaðarhlutfall sitt í gegnum verðhækkanir.

Þau minntu á að verðbólgumarkmiðið væri ekki hugarfóstur Seðlabankans heldur lögbundið markmið. Ásgeir sagði að þrátt fyrir vaxtahækkun gærdagsins væru stýrivextir enn tiltölulega lágir í 3,75% og raunvextir enn neikvæðir.

„Þetta er í rauninni ákall frá okkur um að við gerum þetta saman. Við gætum tekið það að okkur að gera þetta ein en það fæli í sér töluverðan velferðarkostnað," sagði Ásgeir. Þá sagði hann Seðlabankann vilja vernda þann efnahagsbata sem væri hafinn og vonist eftir því að sigla honum áfram samhliða því að ná böndum á verðbólguna. Það velti hins vegar á viðbrögðum annarra við stöðunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .