Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, reifaði hugmyndir um aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að lausnum í húsnæðismálum á ársfundi AS Í í gær.

Eygló minnti á að verkalýðshreyfingin hefði í húsnæðiskreppu á sjöunda áratugnum tekið höndum saman við aðila vinnumarkaðarins og borgina í tengslum við kjarasamninga um stórátak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. „Því spyr ég: Hvers vegna ekki að semja um sérstakt framlag í húsnæðissjóði á vegum verkalýðsfélaganna til uppbyggingar á leiguhúsnæði fyrir félagsmenn?“

Ráðherra vísaði í tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála þar sem gerðar eru tillögur sem liðka eiga fyrir starfsemi húsnæðisfélaga sem byggja eða kaupa íbúðir til útleigu.