Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra gagnrýndi IPA-styrki Evrópusambandsins harðlega í fyrra. Hann taldi ósiðlegt að taka við þeim þar sem líkur séu á að þjóðin hafni aðild að Evrópusambandinu og kallaði styrkina bæði perlur og eldvatn.

RÚV rifjaði ummæli Gunnars Braga upp í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Þar kom fram að Gunnar Bragi hafi dregið í efa að eðlilegt sé að taka við peningunum og bætt við í maí sama ár að engin ástæða sé til að taka við þeim.

Gunnar Bragi kom af fjöllum og sagðist mjög undrandi eftir að greint var frá því í tilkynningu frá skrifstofu stækkunarstjóra framkvæmdstjórnar Evrópusambandsins á þriðjudag að það ætli að hætta að veita verkefnum hér á landi IPA-styrki vegna ákvörðunar Íslendinga að gera hlé á viðræðum um aðild að Evrópusambandinu.